Birta – leikskólastarf á grunni faglegrar umhyggju

Megináherslur í Reynisholti eru á lífsleikninám barna þar sem markvisst er unnið að jákvæðri sjálfsmynd hvers barns og samkennd þess með öðrum.

Leitast er við að skapa starfinu umgjörð sem einkennist af hlýju, umhyggju og fagmennsku. Sú nálgun lífsleikninámsins sem viðhöfð er í Reynisholti með áherslu á vinnu í gegnum snertingu, jóga og slökun hefur nokkra sérstöðu meðal leikskóla og því höfum við viljað gefa þessari nálgun nafn sem væri lýsandi fyrir þá sýn og áherslur sem unnið er eftir.

Nafnið sem við höfum valið fyrir þessa sýn á leikskólastarf er Birta. 

Birta hefur vísun í deildarnöfnin í Reynisholti sem eru Bjartilundur, Geislalundur, Sunnulundur og Stjörnulundur og þá um leið í merkið okkar sem sýnir barn baðað sólarljósi. Birta hefur einnig vísun í þá hlýju og umhyggju sem við viljum að börnin njóti í leikskólanum. Í okkar huga eru börnin líka, hvert og eitt, eins og ljósgeisli, þeim fylgir birta og gleði. Í starfinu vinnum við einnig mikið með hugtök eins og  birta, vinsemd og kærleikur þegar börnin gefa hvert öðru sól á bakið eða slaka á og þiggja umhyggju félaga sinna.

Föstudaginn 18. september 2009 var stofnaður samstarfshópur nokkurra leikskóla undir heitinu Birta. Fjórir leikskólar koma að þessu samstarfi þ.e. Akrasel á Akranesi, Rauðaborg í Reykjavík, Sunnuhvoll í Garðabæ og Reynisholt í Reykjavík en sá síðast nefndi verður móðurskóli samstarfshópsins.   Vorið 2014 hætti Sunnuhvoll í samstarfinu þar sem hann er nú ungbarnaleikskóli. Leikskólinn Skýjaborg á Hvalfjarðarströnd kom inn í samstarfið haustið 2014

Allir skólarnir hafa það markmið að vinna að lífsleikni barna í gegnum jóga auk þess sem umhverfismennt og áhersla á heilbrigði, hreyfingu og hollt fæði eru áberandi í starfi leikskólanna. Tilgangur samstarfsins er að skólarnir fái stuðning hver af öðrum við að efla og þróa jóga sem leið í lífsleikninámi barna og um leið að draga fram þá kosti sem þessi námsleið felur í sér.

Stefna og starfsáætlun