Hagnýtar upplýsingar

Article Index

Hér til hliðar má sjá ýmsar hagnýtar upplýsingar


Opnunartími leikskólans

Leikskólinn er opinn frá kl. 7.30 - 17.00 alla virka daga. Á milli kl. 7.30 - 8.00 er tekið á móti börnum á Geislalundi en hinar deildirnar eru svo opnaðar kl. 8.00. Á sama hátt er börnum sem hafa dvalarsamning fram yfir kl. 16.30 safnað saman á Geislalundi í lok dags.

Við biðjum foreldra að virða dvalarsamninga því vinnutími starfsfólk er skipulagður út frá barnafjölda á hverjum tíma. Þetta á ekki hvað síst við á jaðartímum í upphafi og lok dags.


Þegar barn byrjar í leikskólanum

Áður en aðlögun barns hefst boðar leikskólastjóri foreldra á kynningarfund þar sem leikskólastarfið er kynnt.

Þá gefst þeim tækifæri til að hitta starfsmenn og skoða skólann auk þess sem farið er yfir ýmis gögn er snúa að væntanlegri dvöl barnsins í leikskólanum.

Í upphafi þarf að gefa barninu góðan tíma til að aðlagast leikskólanum. Í aðlögun barnanna er unnið út frá viðmiðunarramma þar sem gert er ráð fyrir að aðlögunin taki u.þ.b. fimm til sex virka daga. Þessi rammi er eingöngu til viðmiðunar og skoðast út frá þörfum hvers barns. Foreldrum er síðan boðið upp á viðtal við deildarstjóra um það bil mánuði eftir að barn byrjar í leikskólanum þar sem farið er yfir líðan barnsins og fleira.

Þá er foreldrum boðið upp á viðtal við deildarstjóra/leikskólakennara að jafnaði tvisvar á ári auk þess sem þeir eru hvattir til að óska eftir viðtali hvenær sem þurfa þykir.


Fylgja barninu inn á deild

Það eru vinsamleg tilmæli að börnunum sé jafnan fylgt inn á deild þegar þau koma í leikskólann þar sem starfsmenn taka á móti þeim og víst er að þau eru komin í öruggar hendur. Á sama hátt er nauðsynlegt að láta starfsmenn deildar vita þegar börn eru sótt.


Fatnaður

Í fataherbergjum er þurrkskápur fyrir hverja deild þar sem hægt er að hengja upp til þerris smærri hluti s.s. vettlinga og húfur. Það er góð regla að foreldrar líti alltaf í þurrkskápinn í lok dags og gangi frá því sem tilheyrir þeirra barni, annað hvort í hólf þess eða taki það með heim í þvott eða til að þurrka betur. Af umhverfis- og sparnaðarsjónarmiðum er ekki kveikt á þurrkskápunum . Við biðjum foreldra vinsamlegast um að tæma hólf og snaga barnanna fyrir helgar svo hægt sé að þrífa hólfin.

Við biðjum foreldra að merkja fatnað barnanna. Leikskólinn tekur ekki ábyrgð á fatnaði barnanna.


Fjarvistir og veikindi barna

Mikilvægt er að tilkynna fjarvistir barns, hvort sem það er vegna veikinda eða fría. Eftir veikindi er sjálfsagt að hafa barn inni í samráði við deildarstjóra viðkomandi deildar.


Lyfjagjöf á leikskólatíma

Sú meginregla gildir í leikskólum Reykjavíkurborgar að lyf eru ekki gefin í leikskólanum heldur er mælst til að lyfjagjöf sé skipulögð þannig að gefa megi lyf eingöngu heima fyrir. Í einstaka tilfellum getur þó verið nauðsynlegt að haga lyfjagjöf með öðrum hætti og biðjum við foreldra um að hafa samráð við deildarstjóra ef svo háttar.


Slys á börnum

Í stórum barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir er strax haft samband við foreldra eða farið með barn á slysadeild ef með þarf. Tvær fyrstu komur á slysadeild, vegna slyss sem verður í leikskólanum, eru greiddar af leikskólanum. Foreldrar eru þá beðnir um að taka nótu fyrir upphæðinni og skila til leikskólastjóra ásamt upplýsingum um bankareikning sem millifæra má á.


Afmæli

Haldið er upp á afmæli barnanna í leikskólanum og reynt er að gera daginn eftirminnilegan fyrir barnið. Það er gert með því að flagga við leikskólann og afmælisbarnið býr til kórónu til að skarta á afmælisdeginum, sunginn er afmælissöngur og afmælisbarnið er í forgrunni þennan dag s.s. fær að vera umsjónarmaður og að velja fyrst í valinu.

Einu sinni í mánuði (síðasta mánudag í mánuði) er síðan afmælisveisla fyrir þau börn sem hafa átt afmæli þann mánuðinn. Þann dag eru myndir af afmælisbörnum mánaðarins settar á sérstaka afmælistöflu, sungið er fyrir þau í vinastund í sal og síðan boðið upp á eitthvað sérstakt í síðdegishressingunni.

Það eru vinsamleg tilmæli til foreldra að þeir dreifi ekki boðskortum um afmæli barna í leikskólanum.


Leikföng að heiman

Meginreglan okkar er að leikföng barnanna séu geymd heima. Undantekning frá þessu eru mjúk tuskudýr sem börnin mega hafa í leikskólanum sér til halds og traust auk þess sem þau mega koma með bækur eða geisladiska, þó ekki nema einn hlut í hvert sinn. Auk þessa mega börnin hafa lítið persónulegt albúm í leikskólanum með myndum af sjálfu sér og nánustu ættingjum.


Skipulags- og námskeiðsdagar

Leikskólinn er lokaður sex daga á ári vegna skipulagningar á uppeldis- og fræðslustarfi leikskólans og endurmenntunar starfsmanna.

Leikskólinn er lokaður þessa daga og eru þeir auglýstir með mánaðar fyrirvara auk þess sem þá er að finna á skóladagatali leikskólans.


Sumarfrí

Á vef Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur eru almennar upplýsingar um sumarfrí barna.

 

Stefna og starfsáætlun