Leikskólastarf

Article Index

 

Sjálfræði og sjálfshjálp

Samhliða lífsleikninámi er stuðlað að sjálfræði og sjálfshjálp barnanna þar sem kennarinn mætir börnunum á jafnréttisgrundvelli. Hann er til staðar fyrir börnin, fylgist með þeim og tekur þátt í leik þeirra ef við á. Hlutverk hans er að styrkja börnin í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, skilja sjónarmið annarra og hvetja þau til sjálfshjálpar auk þess að styðja börnin í að leysa deilur og ágreiningsmál á friðsamlegan hátt. Stefnt er að því að börnin læri að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálf sig í umhverfi sínu.

Þetta er meðal annars gert með því að:

  • Leggja áherslu á að efla sjálfshjálp barnanna við matarborðið. Börnin munu taka þátt í undirbúningi og frágangi máltíða eftir aldri og þroska s.s. að skammta sér sjálf á diskana og hella í glösin. Við matarborðið skapast oft gott tækifæri til að spjalla saman í rólegheitum en leitast er við að matmálstímarnir séu notalegar, rólegar og lærdómsríkar samverustundir.
  • Leggja áherslu á hollar neysluvenjur og fjölbreyttar máltíðir þar sem m.a. er leitast við að halda sykurneyslu í lágmarki.
  • Stuðla að markvissum kyrrðarstundum til að tryggja andlega og líkamlega vellíðan barnanna. Yngstu börnin sofna en eldri börnin hafa fasta kyrrðarstund þar sem þau hlusta á róandi tónlist og/eða sögu, nudda hvert annað, gera rólegar jógaæfingar og fara í slökun.
  • Börnin fá góðan tíma í fataherberginu og njóta stuðnings og þolinmæði hinna fullorðnu svo þau megi ná leikni við að klæða sig í og úr útifötunum og ganga frá eftir sig.
  • Leggja daglega áherslu á markvissa málörvun, rím, þulur, söng, sögulestur og/eða framsögn.
  • Hafa hópastarf þar sem börnunum er skipt niður í hópa eftir aldri og getu. Í hópastarfinu er unnið með námsvið leikskóla og lögð áhersla á samvinnu og sjálfræði barnanna. Þar gefst tækifæri til að sinna hverjum einstaklingi fyrir sig og því er auðveldara að tryggja að allir fái næga athygli; skapa samkennd meðal barnanna og byggja upp traust og öryggi í samskiptum.
  • Útivist er hluti af daglegu lífi í leikskólanum. Meginmarkmiðið með henni er að efla andlega og líkamlega heilsu sem eykur vellíðan og hefur áhrif á einbeitingu, styrk og þol. Útivera er ýmist frjáls eða skipulögð og lögð áhersla á útileiki og ferðir um nánasta umhverfi leikskólans til að börnin kynnist því yndislega umhverfi sem er í kringum leikskólann og ósnortinni náttúru.
  • Stuðla að því að börnin temji sér umhverfisvernd með því að endurvinna hluti og hlúa að gróðri og umhverfi.

Stefna og starfsáætlun