Leikskólastarf

Article Index

Hér til hliðar má sjá ýmislegt um leikskólastarfið.


Grænfáninn

Reynisholt fékk grænfánann til tveggja ára veturinn 2010. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hér á heimasíðunni undir flipanum umhverfismennt.


Dagleg samskipti

Deildarstjóri er ábyrgur fyrir upplýsingamiðlun og tengslum við foreldra. Í upphafi dvalar barns í leikskóla er lagður grunnur að foreldrasamstarfi. Fyrstu dagarnir í leikskólanum skulu skipulagðir með það í huga og áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og traust. Það er mikilvægt að starfsmenn ræði ekki um börnin við foreldra þannig að þau heyri.

Foreldrum eru ekki gefnar upplýsingar um annarra manna börn enda eru starfsmenn  bundnir þagnarheiti um þá vitneskju sem það öðlast um börn, foreldra og samstarfsmenn.


Lífsleikni

Lífsleikninám felur í sér áherslur sem stuðla að því að barnið læri umburðarlyndi í samskiptum sínum og samneyti við aðra. Markmiðið er að starfsmenn séu meðvitaðir um aðferðir sem beita má til að draga úr streitu og hraða í umhverfinu og að stöðugt sé haft að leiðarljósi mikilvægi þess að skapa traust og öryggiskennd meðal barna og fullorðinna. Leitast er við að efla og styrkja frumkvæði barnanna svo þau verði hæfari seinna meir til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi.  Þau verða að eiga þess kost að taka þátt í ákvörðunum er varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfa.

Þetta er m.a. gert með því að:

 • Hafa markvissar snertistundir þar sem áhersla er á vináttu, vellíðan og slökun.
 • Kenna börnum að tileinka sér dygðir, svo sem virðingu, kærleika og umburðarlyndi. Stefnt er að því að hafa tvær til þrjár þeirra að leiðarljósi á hverjum vetri og leggja áherslu á að starfsmenn hafi í huga að við lærum ekki dygðir heldur tileinkum okkur þær.
 • Hafa markvissa hringstund með elstu börnunum einu sinni í viku eftir áramót þar sem börnin fá tækifæri til að tjá tilfinningar sínar.
 • Hafa jógastundir íhverri viku þar sem áhersla er á hreyfingu, jafnvægi, teygjur og slökun.
 • Leggja áherslu á tjáningu og framsögn barnanna til að stuðla að öryggiskennd þeirra og auka færni til samskipta og rökrænnar tjáningar.
 • Vinna með svokallaða persónubrúður í þeim tilgangi að vinna að samkennd meðal barnanna en gegn fordómum og misrétti.
 • Vinna markvisst með leiki t.d. í snerti- og hreyfistundum og er þá m.a. stuðst við bókina Snerting, jóga og slökun eftir þær Elínu Jónasdóttur og Sigurlaugu Einarsdóttur (2003).


 

Sjálfræði og sjálfshjálp

Samhliða lífsleikninámi er stuðlað að sjálfræði og sjálfshjálp barnanna þar sem kennarinn mætir börnunum á jafnréttisgrundvelli. Hann er til staðar fyrir börnin, fylgist með þeim og tekur þátt í leik þeirra ef við á. Hlutverk hans er að styrkja börnin í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, skilja sjónarmið annarra og hvetja þau til sjálfshjálpar auk þess að styðja börnin í að leysa deilur og ágreiningsmál á friðsamlegan hátt. Stefnt er að því að börnin læri að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálf sig í umhverfi sínu.

Þetta er meðal annars gert með því að:

 • Leggja áherslu á að efla sjálfshjálp barnanna við matarborðið. Börnin munu taka þátt í undirbúningi og frágangi máltíða eftir aldri og þroska s.s. að skammta sér sjálf á diskana og hella í glösin. Við matarborðið skapast oft gott tækifæri til að spjalla saman í rólegheitum en leitast er við að matmálstímarnir séu notalegar, rólegar og lærdómsríkar samverustundir.
 • Leggja áherslu á hollar neysluvenjur og fjölbreyttar máltíðir þar sem m.a. er leitast við að halda sykurneyslu í lágmarki.
 • Stuðla að markvissum kyrrðarstundum til að tryggja andlega og líkamlega vellíðan barnanna. Yngstu börnin sofna en eldri börnin hafa fasta kyrrðarstund þar sem þau hlusta á róandi tónlist og/eða sögu, nudda hvert annað, gera rólegar jógaæfingar og fara í slökun.
 • Börnin fá góðan tíma í fataherberginu og njóta stuðnings og þolinmæði hinna fullorðnu svo þau megi ná leikni við að klæða sig í og úr útifötunum og ganga frá eftir sig.
 • Leggja daglega áherslu á markvissa málörvun, rím, þulur, söng, sögulestur og/eða framsögn.
 • Hafa hópastarf þar sem börnunum er skipt niður í hópa eftir aldri og getu. Í hópastarfinu er unnið með námsvið leikskóla og lögð áhersla á samvinnu og sjálfræði barnanna. Þar gefst tækifæri til að sinna hverjum einstaklingi fyrir sig og því er auðveldara að tryggja að allir fái næga athygli; skapa samkennd meðal barnanna og byggja upp traust og öryggi í samskiptum.
 • Útivist er hluti af daglegu lífi í leikskólanum. Meginmarkmiðið með henni er að efla andlega og líkamlega heilsu sem eykur vellíðan og hefur áhrif á einbeitingu, styrk og þol. Útivera er ýmist frjáls eða skipulögð og lögð áhersla á útileiki og ferðir um nánasta umhverfi leikskólans til að börnin kynnist því yndislega umhverfi sem er í kringum leikskólann og ósnortinni náttúru.
 • Stuðla að því að börnin temji sér umhverfisvernd með því að endurvinna hluti og hlúa að gróðri og umhverfi.

Leikdeig

Hér er að finna uppskrift að leikdeiginu okkar góða sem er börnunum finnst afskaplega skemmtilegt að vinna með enda má skapa úr því hvað mann langar til.
Leikdeig

6 dl hveiti
3 dl salt
6 dl vatn
2 tesk. Cream of Tartar
2 matsk. Olía
matarlitur

Deigið er hitað í potti og hrært vel í.

Leirinn þarf síðan að geyma í plasti og reyna að lofttæma eins og hægt er.

Góða skemmtun!

 

 

Stefna og starfsáætlun