Þróunarverkefnið Orð af orði, orðs ég leitaði

Gaman í SögugrunniGaman í SögugrunniVerkefnið Orð af orði orðs ég leitaði var unnið á árunum 2008 - 2011. Verkefnastjóri er Guðrún Sigursteinsdóttir, leikskólaráðgjafi í þjónustumiðstöð Breiðholts og tengiliður leikskólans er Guðrún Grímsdóttir, sérkennslustjóri. Verkefnið hlaut styrk frá Leikskólasviði Reykjavíkur.

Verkefnið byggir á því að efla málþroska barnanna í Reynisholti og þjálfa þau í undirbúningsþáttum lestrarnáms. Mikilvægt er að vinna með ákveðna þætti í málþróun þegar í leikskóla, á markvissan hátt, til að reyna að ná til þeirra barna sem síðar geta átt í erfiðleikum með að tileinka sér lestur.

 

Í Reynisholti vinna kennarar markvisst að því að efla hljóðkerfis- og hljóðvitund barna. Það er gert með notkun námsgagnanna Sögugrunns og Orðahljóð: hljóð, mynd, orð og ákveðinni kennslutækni. Unnið er með fimm þætti sem hafa áhrif til lengri tíma.

Þeir eru: 1. Að efla hlustun. 2. Að þjálfa frásögn. 3. Að efla hljóðvitund og tengja við ritun. 4. Að vinna með bókstafsþekkingu. 5. Að vinna með samskipti með því að nota hlutverkaleikinn sem námsleið.

Samvinna í orðahljóðiSamvinna í orðahljóðiBörnin fá þjálfun í frásögn og sögugerð og vakin er athygli þeirra á málhljóðum íslenskrar tungu og þau hvött til ritunar. Saman vinna þessir þættir að því að gera notkun ritmáls að daglegri athöfn og átakalausu framhaldi af því að nota talmál.

Þegar börnin fara síðan í Sæmundarskóla er fylgst með árangri þeirra (sem hóps) í lestrarnámi hvað varðar tæknina að lesa texta (umskráningu hljóða í stafi) og einnig er kannað hvort þau skilja það sem þau eru að lesa. Áætlað er að fylgjast með í þrjú ár, í Sæmundarskóla, árangri af námi barnanna í leikskólanum. Fyrstu niðurstöður gáfu mjög jákvæðar vísbendingar um ágæti verkefnisins.

Áfangaskýrslu var skilað til Leikskólasviðs Reykjavíkur í janúar 2011. Hér er hægt að nálgast áfangaskýrsluna

Lokaskýrsla um verkefnið kom út í ágúst 2012. Hér getur þú nálgast skýrsluna

Stefna og starfsáætlun