Blind slóð

a. Efla skynfærin – traust.
b. Salur – leikskólalóð – skógur - fjara
c. 1 eða fleiri, minnst 2 fullorðnir fyrir lengri slóðir
d. 4 og eldri
e. Kaðall og treflar til að binda fyrir augun

Leggið slóð með löngum kaðli. Bundið er fyrir augu barnanna. Þau fylgja svo kaðlinum skríðandi. Þegar þau eru komin á endann fá þau að fara slóðina aftur en nú með opin augun. Ræðið um upplifun barnanna. Hvernig var að fara slóðina með bundið fyrir augun? En með opin augun? Hvað fannst þér áhugavert? Gott er að láta slóðina liggja í skeifu svo börnin komi aftur á upphafsstað og varast að láta þau fara of þétt af stað. Einnig er mikilvægt að einn fullorðinn sé við upphaf slóðarinnar og annar ca fyrir miðju til að hjálpa þeim börnum sem þess þurfa.
Ef eitthvað er sem vekja skal sértaka athygli á er hægt að binda hnút á kaðalinn þar, einnig að láta kaðalinn fara upp t.d. í greinar á trjám, eða festa athyglisverða hluti við kaðalinn. Börnin geta giskað á hvað var fest á kaðalinn áður en þau fara brautina aftur
Varist að láta börnin sjá brautina áður en bundið er fyrir augu þeirra, það minnkar áhrifin af upplifuninni. Þó að góðar brautir krefjist þó nokkurs undirbúnings þá er einnig hægt að leggja braut á stuttum tíma sem gefur börnunum samt heilmikið.
 

Útfærslur:
Þessar útfærslur eru frá hinu einfalda til hins flókna. Taka þarf tillit til aldurs barnanna.
Salurinn - Þessi leikur er upphaflega ætlaður börnum eldri en 7 ára. Það er þó hægt að þjálfa börnin í þessari aðferð, t.d. með því að byrja á einfaldri braut í sal þar sem hlutir eru bundnir við kaðalinn, eða farið yfir púða, holukubba, grjónapunga ofl og þannig vinna frá hinu einfalda til hins flókna.
 

Leikskólalóðin – látið slóðina ná undir og yfir leiktækin á leikskólalóðinni t.d. yfir sandkassann, út á grasið, undir grindverk, kringum rólurnar, undir vegasaltið framhjá trjánum ofl..
 

Skógurinn – látið slóðina liggja í gegnum runna (ekki of þétta), í kringum stór tré, yfir rætur trjánna, útúr skógarþykkninu og inn í það aftur.
 

Fjaran – látið slóðina liggja í fjöruna, grófa steina, fína steina, framhjá stórum steinum (t.d. binda hnút á kaðalinn hér svo þau finni stóra steininn), úr þurrum sandi í blautan sand og upp á gras. Hægt er að binda ýmsar skeljar, þara, þang blauta steina ofl. við kaðalinn eða leggja þetta nálægt honum og hafa hnút.
 

Stefna og starfsáætlun